Ferill 914. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 21/153.

Þingskjal 1930  —  914. mál.


Þingsályktun

um landbúnaðarstefnu til ársins 2040.


    Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Meginmarkmið landbúnaðarstefnunnar verði að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
    Framtíðarsýn í landbúnaði taki til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni og verði eftirfarandi:
     a.      Ísland verði í fremstu röð ríkja í framleiðslu heilnæmra landbúnaðarafurða.
     b.      Nýting náttúruauðlinda í landbúnaði verði ávallt sjálfbær.
     c.      Fæðuöryggi verði tryggt.
     d.      Landbúnaður hafi dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, verði kolefnishlutlaus og hafi mikla aðlögunarhæfni gagnvart loftslagsbreytingum.
     e.      Landbúnaður stuðli að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni.
     f.      Beit og önnur landnýting taki mið af ástandi og getu vistkerfa og verði stjórnað í samræmi við viðmið um sjálfbærni.
     g.      Ræktun, nýting lands og bætt landgæði styðji við fjölbreytta atvinnustarfsemi og búsetu um land allt.
     h.      Landnotkun utan þéttbýlis feli í sér vernd góðs landbúnaðarlands.
     i.      Fullnýting afurða og lífrænna hráefna verði tryggð í virðiskeðju landbúnaðar.
     j.      Eðlileg nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verði tryggð.
     k.      Framleiðsla verði arðbær og samkeppnishæf og tryggi byggðafestu og uppbyggingu þekkingar í samfélagi.
     l.      Framfarir í landbúnaði ráðist af nýrri tækni á grundvelli nýsköpunar og hagnýtra rannsókna.
     m.      Menntun í landbúnaðartengdu námi mæti þörfum atvinnulífsins og markaðarins. Framleiðendur búi yfir hæfni og getu til að takast á við áskoranir og tækifæri framtíðarinnar í samræmi við eftirspurn neytenda.
     n.      Framleiðsluhættir verði ávallt þannig að heilsa, velferð og aðbúnaður dýra verði höfð að leiðarljósi.
     o.      Ákvarðanir og stefnumótun á málefnasviðinu taki jafnan mið af samfélagsgæðum, jöfnuði óháð efnahag, kyni, uppruna og búsetu, og hag heildarinnar í efnahagslegu tilliti.
    Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni:
     1.      Fæðuöryggi.
     2.      Loftslagsmál.
     3.      Líffræðilega fjölbreytni.
     4.      Landnýtingu og varðveislu landbúnaðarlands.
     5.      Hringrásarhagkerfi.
     6.      Alþjóðleg markaðsmál.
     7.      Neytendur.
     8.      Nýsköpun og tækni.
     9.      Menntun, rannsóknir og þróun.
     10.      Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað.

1. Fæðuöryggi.
1.1.        Stoðir fæðukerfa og fæðuöryggis landsins verði styrktar með því m.a. að styðja við nýsköpun í landbúnaði og stuðla að aukinni sjálfbærni með tilliti til aðfanga, jarðvegsverndar, auðlindanýtingar og hringrásarhagkerfis. Aðgengi að heilnæmum mat verði óháð efnahag.
1.2.        Skilgreindar lágmarksbirgðir matvæla verði í landinu á hverjum tíma, sem og aðföng til framleiðslunnar.
1.3.        Við töku ákvarðana um landnotkun verði fæðuöryggi þjóðarinnar haft að leiðarljósi.
1.4.        Markvisst verði unnið að framförum í grasrækt og ræktun annarra fóðurjurta samhliða aukinni áherslu á fjölbreyttari garðyrkju og aðra ræktun afurða til manneldis, aukna kornrækt og hvers konar nýjungar, svo sem ræktun orkujurta.
1.5.        Styrktar verði stoðir fjárhagslegrar afkomu framleiðenda sem einnar af undirstöðum fæðuöryggis.

2. Loftslagsmál.
2.1.        Hvati verði skapaður innan stuðningskerfis landbúnaðarins til að auðvelda bændum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu í gróðri og jarðvegi.
2.2.        Mótaður verði rammi um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og landnotkun.
2.3.        Aukið verði við rannsóknir og vöktun á áhrifum íslensks landbúnaðar á loftslag og aðlögunar hans að loftslagsbreytingum.

3. Líffræðileg fjölbreytni.
3.1.        Landnotkun í landbúnaði tryggi verndun og endurheimt viðkvæmra og mikilvægra tegunda og vistkerfa til að stuðla að líffræðilegri fjölbreytni með vísindi vistkerfisnálgunar að leiðarljósi.
3.2.        Staðinn verði vörður um erfðaauðlindir í íslenskum landbúnaði.

4. Landnýting og varðveisla landbúnaðarlands.
4.1.        Sett verði skýr viðmið um land- og beitarnýtingu með reglugerð um sjálfbæra landnýtingu. Innan ramma þeirra verði settar reglur um nýtingu á einstökum svæðum.
4.2.        Sett verði skýr og samræmd viðmið um hvernig flokka skuli land með tilliti til landbúnaðar og búskapar og hvernig það verði best varðveitt, byggt á upplýsingum um gæði jarðvegs og skilyrðum til ræktunar.
4.3.        Sérkenni landbúnaðarlands og landslags verði virt, viðgangur vistkerfa verði tryggður og nytjaland, jarðfræðileg fjölbreytni og menningarlandslag verði varðveitt.

5. Hringrásarhagkerfi.
5.1.        Stutt verði við hringrásarhagkerfið með þróun í fullvinnslu og fullnýtingu afurða og þannig verði stuðlað að minni sóun og minna kolefnisspori.
5.2.        Tryggja skuli að landbúnaður gegni stóru hlutverki innan hringrásarhagkerfisins, ekki síst varðandi nýtingu á lífrænum efnum.

6. Alþjóðleg markaðsmál.
6.1.        Stuðlað verði með markvissum hætti að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur en jafnframt verði gætt að hagsmunum og rekstrarskilyrðum innlendra framleiðenda.
6.2.        Tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöf.

7. Neytendur.
7.1.        Stuðlað verði að aðlögunarhæfni landbúnaðarins til að mæta þörfum neytenda á hverjum tíma.
7.2.        Góðar nettengingar og tækniframfarir verði nýttar til að auka aðgang framleiðenda að markaði.
7.3.        Upplýsingagjöf og bein tengsl milli framleiðenda og neytenda styrki gagnkvæmt traust.
7.4.        Sérstaklega verði hugað að leiðum til að auðvelda neytendum að velja vörur eftir eigin gildum og afstöðu til landbúnaðarframleiðslu, m.a. með bættum upplýsingum um uppruna, innihald og kolefnisspor landbúnaðarafurða.

8. Nýsköpun og tækni.
8.1.        Ný tækni og endurnýjanlegir orkugjafar verði nýttir í þágu framþróunar og nýsköpunar.
8.2.        Innleiðing rakningarkerfa byggi upp tengsl bænda og neytenda auk þess sem þau nýtist í þágu matvælaöryggis.
8.3.        Tækniframfarir verði nýttar til framþróunar í íslenskri landbúnaðarframleiðslu.

9. Menntun, rannsóknir og þróun.
9.1.        Háskólamenntun, starfsmenntun og endurmenntun leggi grunn að framsæknum og öflugum landbúnaði.
9.2.        Tryggt verði hæfilegt jafnvægi milli fræðilegra og hagnýtra háskólarannsókna sem kynntar verði framleiðendum á markvissan hátt.
9.3.        Lögð verði áhersla á miðlun þekkingar til framleiðenda í því skyni m.a. að efla samkeppnishæfni landbúnaðar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu í gróðri og jarðvegi, styðja sjálfbæra landnýtingu og efla lífræna ræktun.
9.4.        Landbúnaður verði framsækinn og eftirsóknarverður starfsvettvangur óháð efnahag, kyni og uppruna.

10. Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað.
10.1.    Stuðningur hins opinbera styrki og fjölgi stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.
10.2.    Áherslur í styrkjakerfi landbúnaðar styðji við fjölbreyttari framleiðslu landbúnaðarafurða og aukin áhersla verði lögð á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu á grunni efnahagslegrar, félagslegrar og umhverfislegrar sjálfbærni.
10.3.    Við ráðstöfun opinbers fjár eða við aðrar aðgerðir til að efla stoðir landbúnaðar verði sérstaklega hugað að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun.
10.4.    Stuðningur við landbúnað skapi stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar.

Stefnan í framkvæmd.
    Til að hrinda landbúnaðarstefnu til ársins 2040 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn og þær birtar.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2023.